Erlent

Keníuforseti lýsir yfir stríði gegn al-Shabab

Atli Ísleifsson skrifar
Uhuru Kenyatta Keníuforseti.
Uhuru Kenyatta Keníuforseti. Vísir/AFP
Uhuru Kenyatta Keníuforseti segist hvergi ætla að hvika í stríðinu gegn íslömsku hryðjuverkasamtökunum al-Shabab í kjölfar fjöldamorðsins á 36 námuverkamönnum nálægt sómölsku landamærunum í morgun.

„Þetta er stríð gegn Keníu og Keníumönnum,“ sagði Kenyatta í sjónvarpsviðtali fyrr í dag. „Þetta er stríð sem sérhver okkar verður að taka þátt í.“

Í frétt BBC kemur fram að Kenyatta hafi einnig greint frá því að David Kimayo, æðsti yfirmaður lögreglunnar í landinu, myndi láta af störfum.

Fjöldamorðið í morgun var framið skammt frá bænum Mandera í norðurhluta Keníu. Árásarmennirnir söfnuðu þar saman öllum þeim námuverkamönnum sem ekki voru íslamstrúar og skutu þá svo til bana.

BBC hefur eftir heimildarmanni sínum að árásarmennirnir hafi komið að mönnunum sofandi í tjöldum sínum og síðar skotið þá í höfuðið af stuttu færi. Þá hafi fjórir verið afhöfðaðir inni í tjöldunum, en þrír náð að flýja af vettvangi.

Yfirvöld í Keníu hafa vaxandi áhyggjur af öryggi á svæðum nálægt Sómalíu en árásir hafa verið tíðar að undanförnu. Þannig drápu liðsmenn hryðjuverkasamtakanna Al-Shabab 28 farþega strætisvagns í sama héraði í síðustu viku. Öll fórnarlömbin voru annarrar trúar en íslamstrúar.


Tengdar fréttir

Enn eitt fjöldamorðið í Kenýa

Vígamenn myrtu þrjátíu og níu námamenn í grennd við kenýska bæinn Mandera í nótt. Morðingjarnir skiptu verkamönnunum í tvo hópa, þá sem voru múslimar og þá sem voru það ekki. Því næst var síðarnefndi hópurinn tekinn af lífi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×