Enski boltinn

Sunderland hélt Chelsea í skefjum | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sunderland varð aðeins þriðja liðið til að taka stig af Chelsea í vetur þegar liðin gerðu markalaust jafntefli á Ljósvangi í síðasta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Eins og við var búist var Chelsea mun meira með boltanum í leiknum, en lærisveinum Josés Mourinho gekk illa að skapa sér færi gegn vel skipulögðu liði Sunderland.

Chelsea var í tvígang nálægt því að skora í fyrri hálfleik, fyrst þegar Willian átti skot í stöngina og svo varði rúmenski markvörðurinn Costel Pantilimon vel frá Branislav Ivanovic.

Sunderland fékk einnig sitt besta færi í fyrri hálfleik þegar Santiago Vergini skaut boltanum í slána.

Mourinho setti Didier Drogba, Loic Remy og Andre Schürrle alla inn á í seinni hálfleik, en þrátt fyrir það tókst Chelsea ekki að skora og liðið varð því að sætta sig við eitt stig.

Chelsea situr enn í toppsæti deildarinnar með 33 stig, en liðið hefur ekki enn tapað leik á tímabilinu. Síðasta tapleikur Chelsea í deildinni kom hins vegar gegn Sunderland, 19. apríl 2014.

Sunderland er komið upp í 13. sætið með 14 stig, en þetta var áttunda jafntefli liðsins í deildinni í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×