Real Sociedad komst upp í tólfta sæti spænsku úrvalsdeildarinnar er liðið vann sigur á Elche, 3-0, á heimavelli sínum í kvöld.
Þetta var fyrsti heimaleikur liðsins undir stjórn David Moyes sem tók nýverið við sem knattspyrnustjóri. Liðið gerði markalaust jafntefli við Deportivo í hans fyrsta leik um síðustu helgi.
Alfreð Finnbogason var á meðal varamanna Real Sociedad í kvöld en kom inn á strax á níundu mínútu vegna meiðsla Imanol Agirretxe.
Alfreð átti fínan leik en það var þó Mexíkóinn Carlos Vela sem var stjarna leiksins. Hann skoraði öll þrjú mörk Real Sociedad í leiknum og fór á kostum.
Elche er í næstneðsta sæti spænsku deildarinnar með tíu stig.
