Innlent

Stjórnarandstaðan segir ríkisstjórnina með ranga forgangsröðun

Heimir Már Pétursson skrifar
Stjórnarandstaðan er ekki sátt við skuldaaðgerðir ríkisstjórnarinnar og talar um ranga forgangsröðun. Nær væri að treysta innviði samfélagsins eins og heilbrigðis- og menntakerfið og greiða niður skuldir ríkissjóðs en dreifa tugum milljarða til lántakenda.

Það var svo sem ekki við því að búast að stjórnarandstaðan fagnaði skuldaaðgerðum ríkisstjórnarinnar en formaður Vinstri grænna segir ekki margt nýtt hafa komið fram á því sem hún kallar skrautsýningu í Hörpu. Þessar aðgerðir endurspegli ranga forgangsröðun þótt vissulega létti þetta undir hjá einhverjum en öðrum ekki.

„Og þegar við horfum á heildarmyndina, það er að segja hvernig ríkisstjórnin hefur ákveðið að forgangsraða fjármunum, og horfum á heilbrigðisþjónustuna, framhaldsskólana, háskólana, leigjendur sem sitja eftir, unga fólkið sem er ekki farið inn á húsnæðismarkaðinn, þá finnst mér þetta ekki rétt forgangsröðun á sameiginlegum sjóðum okkar,“ segir Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna.

Guðmundi Steingrímssyni formanni Bjartrar framtíðar líst illa á að skattfé sé eytt með þessum hætti.

„Þetta eru peningar sem koma úr spítölunum okkar og heilbrigðiskerfinu almennt, úr skólakerfinu, vegakerfinu. Við notum ekki þessa peninga til að greiða niður opinberar skuldir sem eru skuldir okkar allra. Þetta er peningur úr vasa almennings og með þessum aðgerðum er algerlega nauðsynlegum viðhalds- og uppbyggingar verefnum þá slegið á frest,“ segir Guðmundur

Það eigi að aðstoða heimili í verulegum skuldavanda en með þessu væri verið að slá lán hjá komandi kynslóðum. Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar segir miklu flaggað hjá ríkisstjórninni.

„Og þá líklega til þess að breiða yfir það að efndirnar eru ekki í nokkru samræmi við loforðin sem gefin voru um mörg hundruð milljarða frá hrægammasjóðum. Það er verið að borga úr ríkissjóði aðgerð sem felur það í sér að þeir betur stæðu fá mest. Það er ekkert sem breytir þeirri staðreynd að 64 prósent íbúðalána eru í höndum best stæða þriðjungs þjóðarinnar en bara 6 % íbúðalánanna hjá þeim þriðjungi sem er með minnstar tekjurnar,“ segir Árni Páll.

Birgitta Jónsdóttir þingflokksformaður Pírata segir erfitt að gera sér grein fyrir því nú hverju aðgerðirnar skili fólki. Þá sé óvissan töluverð þar sem einn bankanna hafi nú þegar ákveðið að höfða mál gegn ríkinu út af bankaskattinum sem á að standa undir aðgerðunum.

„Og ef ríkið tapar hvert fer þá sá reikningur? Ég hef líka áhyggjur af því að nú á að hækka matarskatt og það er ýmislegt annað í kortunum sem sýnir mjög grafalvarlega stöðu í fjármálum ríkissjóðs og kemur til með að bitna á almenningi eins og staðan á spítulunum og þessi matarskattur sem ég veit að að mun koma sér mjög illa fyrir marga. Þannig að mun matarskatturinn ekki bara éta upp þetta hjá þeim sem fá bætta stöðu?,“segir Birgitta.


Tengdar fréttir

Synja 15.000 um leiðréttingu húsnæðislána

Skuldaleiðrétting ríkisstjórnarinnar verður kynnt í Hörpu eftir hádegi í dag. Höfuðstóll verðtryggðs húsnæðisláns lækkar um 1,5 milljónir að meðaltali. Af 105.000 manns sem sóttu um fá 90.000 manns leiðréttingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×