Innlent

Tugmilljarða óvæntur afgangur nýttur í skuldaniðurfærsluna

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Útlit er fyrir fjörtíu milljarða króna afgang af rekstri ríkissjóðs á þessu ári. Það er um það bil fjörtíu sinnum meira en gert var ráð fyrir í fjárlögum ársins. Þessi afgangur verður nýttur í að greiða hraðar inn á skuldaniðurfærsluaðgerðir ríkisstjórnarinnar.

„Það hafði verið áætlað að við værum svona um það bil með jöfnuð eða einn milljarð í afgang á þessu ári en það stefnir í að það og er samkvæmt fjáraukalagafrumvarpinu rúmleg fjörtíu milljarða afgangur,“ sagði Bjarni á kynningarfundinum.

Fjáraukalagafrumvarpið var lagt fram fyrir helgi og bíður meðferðar. Bjarni tilkynnti á kynningarfundinum að í þinglegri meðferð frumvarpsins verði lögð fram breytingartillaga sem heimili stjórnvöldum að verja tvöfalt meira fé í skuldaniðurfærsluna en áður hafði verið ákveðið.

Tilgangurinn er að spara vaxtagjöld. „Það lækkar verulega þá vexti sem renna til bankanna og það nýtist heimilunum og styrkir auk þess stöðu ríkisins, án þess að auknu fjármagni sé varið í aðgerðina,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra við sama tilefni.

Bjarni sagði að of margir milljarðar hefðu farið í vexti. „Af heildarfjármagninu sem við höfðum aætlað á ríkisfjármálaáætlun í þetta verkefni voru, að okkar mati, að fara of margir milljarðar í vaxtakostnað,“ sagði hann.

Samkvæmt fjáraukalagafrumvarpinu fær ríkissjóður 45,8 milljarðar umfram áætlanir í arðgreiðslur frá viðskiptabönkum sem ríkið á hlut í og frá Seðlabankanum. Arður frá Landsbankanum, sem ríkið á að nær fullu, nemur 19,7 milljörðum króna og arður frá Seðlabankanum 6,5 milljarðar, um tveimur milljörðum umfram áætlanir.

Mestu munar þó um 26 milljarða króna tekjufærslu vegna lækkunar á skuldabréfi sem ríkissjóður gaf út til að styrkja eiginfjárstöðu Seðlabankans vegna taps á veð- og daglánum í kjölfar falls bankakerfsins haustið 2008, að því er segir í frumvarpinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×