Innlent

Synja 15.000 um leiðréttingu húsnæðislána

Þeir sem njóta skuldaleiðréttingar ríkisstjórnarinnar munu vera um 90.000 einstaklingar, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Þegar umsóknarfrestur rann út 1. september höfðu borist 69.000 umsóknir um skuldaleiðréttingu, og að baki þeim stóðu 105 þúsund einstaklingar. Því hafa umsóknir sem 15.000 manns standa að baki ekki uppfyllt skilyrði.

Skuldaleiðréttingin verður kynnt í Hörpu klukkan 13.30 í dag. Meðalleiðrétting á höfuðstóli verðtryggðs húsnæðisláns er rétt um 1,5 milljónir króna, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins, um 25.000 krónur á mánuði.

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði í viðtali í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í gærmorgun að leiðréttingin væri að meðaltali ein til tvær milljónir króna. Ásmundur sagði jafnframt að stærstur hluti leiðréttingarinnar rynni til fjölskyldna sem hafa tekjur undir sex milljónum króna á ári.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins munu ráðstöfunartekjur þess hóps sem ber mest úr býtum hækka um 300.000 krónur á ári eða um 25.000 krónur á mánuði. Hvað þetta á við um fjölmennan hóp fengust hins vegar ekki upplýsingar í gær, frekar en upplýsingar um greiðslur til einstakra hópa.

Skuldaleiðréttingin er á dagskrá ríkisstjórnarfundar klukkan 9.30. Í dagskrá fundarins mun standa að tekin verði fyrir „breytt fjármögnun skuldaleiðréttingarinnar“, en þetta orðalag fékkst ekki skýrt áður en blaðið fór í prentun.

Niðurstaðan sem kynnt verður í dag er fyrsta skrefið í aðgerð sem nær til fjögurra ára og mun kosta 80 milljarða króna þegar upp er staðið. Leiðrétting á hverju láni getur aldrei orðið hærri en fjórar milljónir króna. Á morgun getur hver og einn lántaki séð hversu mikið fasteignalán hans lækkar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.