Erlent

Mikil reiði yfir úrskurði í Suður-Kóreu

Samúel Karl Ólason skrifar
Ættingjar farþega ferjunnar héldu blaðamannafund í dag, þar sem þau mótmæltu úrskurðum dómstóla vegna ferjuslyssins.
Ættingjar farþega ferjunnar héldu blaðamannafund í dag, þar sem þau mótmæltu úrskurðum dómstóla vegna ferjuslyssins. Vísir/AFP
Ættingjar þeirra sem fórust þegar ferja sökk við strendur Suður-Kóreu í apríl, eru margir hverjir æfir yfir úrskurði yfir skipstjóra ferjunnar. Sá var dæmdur í 36 ára fangelsi fyrir manndráp af gáleysi, en saksóknarar höfðu farið fram á dauðadóm fyrir morð.

Rúmlega 300 manns fórust með ferjunni, þar af mest skólabörn. Skipstjórinn, Lee Joon-seok, var hins vegar einn þeirra fyrstu sem flúðu frá borði. Aðrir yfirmenn ferjunnar fengu 15 ára dóm og 20 ára. Hins vegar var vélstjóri hennar dæmdur fyrir morð, þar sem hann skildi tvo samstarfsfélaga sína, sem voru meiddir, eftir um borð.

Þrettán aðrir starfsmenn ferjunnar fengu allt að tuttugu ára fangelsisdóm.

„Vitið þið hve mörg börn eru dáin?“ öskraði einn ættingi fyrir utan dómshúsið, samkvæmt BBC. Ættingjar þeirra sem fórust, mótmæltu úrskurðinum í dag, eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi.

Einhverjir ættingjar hafa farið fram á að saksóknarar áfrýi öllum úrskurðunum.

Lee sagði í dag að hann hefði framið glæp og hann ætti skilið að deyja vegna þessa. Hann baðst afsökunar fyrir að hafa yfirgefið ferjuna, en bað um að fólk hugsaði ekki um sig sem morðingja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×