Innlent

Sýna tónlistarkennurum stuðning

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Valgarður
Verkfall tónlistarkennara hefur nú staðið yfir í tuttugu og einn dag. Ríkissáttasemjari sleit samningafundi á tíunda tímanum í gærkvöldi og hefur ekki boðað til nýs fundar. Í tilkynningu til fjölmiðla, segir Sigrún Grendal, formaður Félags tónlistarkennara, að þau skynji að fólk styðji þeirra sanngjörnu kröfur.

Hún segir stöðuna vera grafalvarlega og að vandi samninganefndar tónlistarkennara sé margþættur og uppsafnaður.

„Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga sendi út bréf til sveitarfélaga um hádegisbil í gær þar sem dregin er upp þeirra túlkun á stöðunni.Niðurstaða samningafundar aðila seinna þennan sama dag undirstrikar hins vegar fyrri túlkun Félags tónlistarskólakennara á stöðu deilunnar: tónlistarkennurum eru enn settir óaðgengilegir afarkostir í kjaraviðræðunum sem ógna faglegri getu tónlistarskóla til að uppfylla þau skilyrði að starfa samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla.“

Sigrún segir tónlistarkennara hafa verulegar áhyggjur af því hvert stefni með tónlistarkerfið á Íslandi og tónlistarmenntun.

Fjölmargir listamenn tóku þátt í myndbandi til stuðnings tónlistarkennara sem birt var í dag.

Ásgeir Trausti, tónlistarmaður, Guðrún Eva Mínervudóttir, rithöfundur, Jakob Frímann Magnússon, tónlistarmaður, Brynhildur Guðjónsdóttir, leikari, Steinunn Birna Ragnarsdóttir, tónlistarstjóri Hörpu, Haraldur Ólafsson, veðurfræðingur, Ágúst Einarsson, prófessor og Bjarki Karlsson, rithöfundur segja frá reynslu sinni af tónlistarnámi og hve nauðsynlegt það er.

Verkfall FT - stikla 1 from Kennarasamband Íslands on Vimeo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×