Innlent

Maðurinn fundinn á lífi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hér má sjá kort af því hvar maðurinn fór út í ána á bíl sínum og hvar hann fannst.
Hér má sjá kort af því hvar maðurinn fór út í ána á bíl sínum og hvar hann fannst. Vísir/Loftmyndir

Ökumaður bíls sem fór út í Ölfusá í kringum hálf ellefu í gærkvöldi er fundinn. Maðurinn er á lífi og er kominn til aðhlynningar á sjúkrahúsinu á Selfossi. Ekki er vitað hversu mikið hann er slasaður en hann var kaldur og hrakinn þegar hann fannst neðan við flugvöllinn á Selfossi.

Maðurinn er á þrítugsaldri og búsettur í Árnessýslu. Kom hann gangandi til móts við leitarmenn úr björgunarsveitinni Dagrenningu á ellefta tímanum. Voru þá liðnar tólf klukkustundir síðan bíllinn fór út í ána.

Sjá einnig: Maðurinn leitaði skjóls í vélgröfu

Í kringum áttatíu manns leituðu mannsins langt fram á nótt. Sigldu björgunarsveitarmenn bát upp og niður ána. Einnig var leitað frá bökkum árinnar.

Nokkir leitarmenn fylgdust með úr meiri hæð og skimuðu yfir svæðið. Þá voru kafarar kallaðir til og mátu stöðuna í morgun en afar straumhart er í ánni þar sem bíllinn fór út í. Til stóð að í kringum hundrað manns tækju þátt í leitinni í dag.

Vitni var að atvikinu í gærkvöldi. Það tilkynnti lögreglu hvers kyns var og voru björgunaraðilar kallaðir út. Meðal annars kafarar með málmleitartæki og þyrla gæslunnar flaug yfir leitarsvæðið í nótt.

Uppfært klukkan 11
Fulltrúar lögreglu og björgunarsveita funda nú í kjölfar fundarins. Tíðinda er að vænta fljótlega.

Uppfært klukkan 12
Maðurinn var fluttur á heilbrigðisstofnun Suðurlands og í kjölfarið á sjúkrahús í höfuðborginni. Bíll mannsins er ófundinn og ekki er fyrirhuguð leit að honum að svo stöddu.

Fréttin verður uppfærð eftir því sem nýjar upplýsingar berast.


Tengdar fréttir

Leit hafin á ný í Ölfusá

Hátt í áttatíu manns leituðu án árangurs langt fram á nótt að bíl sem ekið var út í Ölfusá í gærkvöldi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.