Lögreglumenn og björgunarsveitarmenn víðsvegar af Suðurlandi leita nú með bökkum Ölfusár, eftir að bíl var ekið út í ána skömmu fyrir ellefu í kvöld. Lögreglan telur að einn hafi verið í bílnum en það er ekki vitað með vissu.
Umfangsmikil leit stendur nú yfir á milli hótelsins og kirkjunnar á Selfossi og hafa björgunarsveitir úr nærliggjandi sveitarfélögum verið kallaðar til hjálpar. Gönguhópar björgunarsveita ganga með árbökkum og kanna grynningar.
Kafarar taka einnig þátt í leitinni og björgunarsveitir eru með gúmmíbáta og sæketti á ánni. Þá eru ljóskastarar einnig notaðir og þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð til hjálpar og kom hún á vettvang fyrir eitt í nótt.
Þegar þetta er skrifað er enn ekki vitað hver það var sem keyrði bílnum og lögreglan reynir nú að komast að því.
Bíllinn hefur ekki fundist samkvæmt upplýsingum af vettvangi. Mjög djúpt og straumþungt er þar sem áin beygir fyrir neðan brúnna. Þar myndast miklir hringiðustraumar og þess vegna verður ekkert kafað þar í nótt.
83 björgunarsveitarmenn taka nú þátt í leitinni auk lögreglumanna, kafara og áhafnar þyrlu Landhelgisgæslunnar. Allt í allt eru um hundrað manns að leita.
Leit mun standa yfir í alla nótt og verður Björninn, færanleg stjórnstöð svæðisstjórnar björgunarsveita á höfuðborgarsvæðinu, nýttur sem stjórnstöð aðgerða.
Uppfært kl. 10.50
Maðurinn fannst á lífi og er kominn til aðhlynningar á sjúkrahúsinu á Selfossi. Sjá meira hér.

