Enski boltinn

Blind gæti verið lengi frá - tíu meiddir hjá United

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Daley Blind gæti verið frá í allt að tvo mánuði.
Daley Blind gæti verið frá í allt að tvo mánuði. vísir/getty
Daley Blind, leikmaður Manchester United, meiddist illa í 6-0 sigri Hollands gegn Lettlandi í undankeppni EM 2016 í gær og gæti verið lengi frá. Hann fer í myndatöku í dag og kemur þá í ljós hversu alvarleg meiðslin eru.

„Ég er frekar neikvæður. Ég held að liðbandið í hnénu sé farið hjá honum. Það gæti verið slitið,“ sagði Guus Hiddink, landsliðsþjálfari Hollands eftir leikinn.

Sjálfur skrifaði Blind á Instagram-síðu sína: „Stoltur af 25 leikjum fyrir Holland en er í rusli vegna meiðslanna. Ég mun vera jákvæður og koma sterkari til baka.“

Blind, sem United keypti frá PSV Eindhoven í sumar fyrir 14 milljónir punda, hefur spilað átta leiki fyrir liðið og staðið sig ágætlega. Hann hefur mest megnis spilað á miðjunni en leysti af í miðvarðarstöðunni gegn Crystal Palace um síðustu helgi.

Meiðslavandræði United eru engu lagi lík, en Louis van Gaal gæti einnig verið án markvarðarins David De Gea sem fór úr lið á fingri á æfingu með Spáni á föstudaginn. Þá dró Michael Carrick sig úr enska hópnum vegna meiðsla í nára.

Þessi meiðsli bætast ofan önnur meiðsli manna á borð við Phil Jones, Marcos Rojo, Chris Smalling, Radamel Falcao, Ashley Young og Rafael.

Manchester United mætir Arsenal á útivelli þegar enska úrvalsdeildin hefst aftur um næstu helgi eftir landsleikjafrí.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×