Enski boltinn

Ferguson: Fannst Scholes of lítill til að ná langt

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sir Alex Ferguson og Paul Scholes með ellefta úrvalsdeildartitilinn sem þeir unnu saman.
Sir Alex Ferguson og Paul Scholes með ellefta úrvalsdeildartitilinn sem þeir unnu saman. vísir/getty
Sir Alex Ferguson, sigursælasti knattspyrnustjóri Manchester United frá upphafi, segir í viðtali við tímaritið The Big Issue að honum hafi fundist Paul Scholes of lítill til að ná langt fyrst þegar hann sá hann spila.

Scholes, sem varð fertugur á sunnudaginn, vann ellefu úrvalsdeildartitla með United og Meistaradeildina tvívegis. Hann spilaði í heildina 718 leiki fyrir félagið og er þriðji leikjahæstur á eftir Ryan Giggs og Sir Robby Charlton.

„Ég var mjög meðvitaður um að mér fannst hann of lítill, en þá kemur að því að hlúa að hæfileikaríkum leikmönnum. Manni er launað fyrir slíkt. Það var frábær áskorun,“ segir Ferguson í viðtalinu.

Ferguson kenndi við Harvard á síðasta ári, en sjálfur fékk hann ekki slíka menntun. Hann segist þó hafa hitt nokkra ansi klára fótboltamenn á sínum ferli.

„Ég hef alltaf verið með nokkuð gott minni, en Patrice Evra, það er gáfaður maður. Hann talar fimm tungumál og hjálpaði mikil til í búningsklefanum. Afskaplega indæll maður,“ segir Sir Alex Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×