Enski boltinn

Jonás Gutiérrez sigraðist á krabbanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jonás Gutiérrez.
Jonás Gutiérrez. Vísir/Getty
Jonás Gutiérrez, vængmaður Newcastle United í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta, fékk góðar fréttir á dögunum en læknar sögðu hann hafa sigrast á krabbameininu sem hann hefur glímt við síðustu mánuði.

Argentínski landsliðsmaðurinn hélt fyrst veikindum sínum leyndum en sagði síðan frá því í sumar að hann væri að gangast undir lyfjameðferð vegna krabbameins í eista og að annað eistað hans hefði verið fjarlægt til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu.

Jonás Gutiérrez tilkynnti það síðan á twitter-síðu sinni í gær að hann væri búinn að frá grænt ljós frá læknum sínum sem segja kappann laus við krabbameinið.

Gutiérrez spilaði síðast með Newcastle í október á síðasta ári en var í sex mánuði á láni hjá Norwich City.

Hinn 31 árs gamli Gutiérrez á eftir sjö mánuði á samningi sínum við Newcastle United og knattspyrnustjórinn Alan Pardew hefur boðið hann velkominn á æfingar ætli Argentínumaðurinn að koma sér aftur í leikform.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×