Innlent

Skaðabótakröfum á hendur Gísla Frey vísað frá dómi

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Gísli Freyr ásamt Ólafi verjanda sínum
Gísli Freyr ásamt Ólafi verjanda sínum Visir/GVA
Ákæra saksóknara og bótakröfur á hendur Gísla Frey Valdórssyni, aðstoðarmanni innanríkisráðherra, skulu reknar sem sitt hvort dómsmálið. Þetta var niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur í morgun. Gísli er ákærður fyrir að hafa lekið minnisblaði um Tony Omos úr innanríkisráðuneytinu í nóvember í fyrra. Í minnisblaðinu komu fram upplýsingar um persónu Omos, eiginkonu hans og aðra konu.

Ákæra saksóknara var gefin út 15. ágúst en bótakröfur kvennanna komu ekki fram fyrr en 16. september og krafa Omos í byrjun október.  Krafði Omos Gísla um fimm milljónir króna, eiginkona hans vill fá 4,5 milljónir í skaðabætur og síðari konan krefst 2,5 milljóna.

Ólafur Garðarsson, verjandi Gísla Freys, sagði í samtali við Vísi að dómarinn taldi að skaðabótakröfurnar gætu tafið framgang málsins og því hafi hann tekið þessa ákvörðun. Að auki féll dómur í Hæstarétti síðastliðinn fimmtudag þar sem einkaréttarlegum kröfum, sem fram komu í framhaldsákæru, var vísað frá dómi.

Að auki bætti Ólafur við að hann teldi líklegt að þremenningarnir myndu bíða eftir því að dómur muni falla í máli Gísla Freys áður en þeir myndu halda áfram með skaðabótamálið.

Aðalmeðferð í máli ríkissaksóknara gegn Gísla Frey hefst miðvikudaginn 12. nóvember.


Tengdar fréttir

Krefja Gísla Frey um sjö milljónir króna

Gísli Freyr Valdórsson, aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, er krafinn um sjö milljónir króna í miskabætur vegna meints leka úr innanríkisráðuneytinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×