Fótbolti

BT: Íslendingar fyrir ofan stóru bræður sína á heimslistanum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson hefur farið á kostum og skorað fjögur mörk í þremur leikjum.
Gylfi Þór Sigurðsson hefur farið á kostum og skorað fjögur mörk í þremur leikjum. vísir/andri marinó
Það hefur ekki farið framhjá neinum í dag að Ísland er besta Norðurlandaþjóðin í fótbolta samkvæmt nýjum FIFA-lista sem gefinn var út í morgun.

Ísland hefur hoppað upp úr 131. sæti og upp í það 28. á skömmum tíma og er nú fjórum sætum fyrir ofan Danmörku og ellefu sætum á undan samlöndum LarsLagerbäcks frá Svíþjóð.

Mikið hefur verið skrifað um stöðu Íslands í fjölmiðlum á Norðurlöndum og á vef danska blaðsins BT segir:

„Ísland er nú besta Norðurlandaþjóðin. Það smá sjá á FIFA-listanum sem birtur var í morgun. Ísland er í 28. sæti, fyrir ofan stóru bræður sína frá Svíþjóð, Noregi og Danmörku.“

Í fréttinni segir að staða Íslands á listanum komi til vegna óvæntra sigra á stórliðum eins og Tyrklandi og Hollandi, en Ísland fór úr 46. sæti í það 28. á tveimur mánuðum.

„Uppsveifla Íslendinga er ekki síst að þakka sænska þjálfaranum Lars Lagerbäck sem tók við liðinu og hefur náð því besta út úr mörgum leikmönnum. Þar ber hæst að nefna Gylfa Þór Sigurðsson sem hefur skorað fjögur mörk í fyrstu þremur leikjum liðsins í undankeppninni.“

Besta fótboltalandsliðið á Norðurlöndum

(Staða þjóða á FIFA-listanum 23. október 2014)

28. sæti Ísland

32. sæti Danmörk

39. sæti Svíþjóð

63. sæti Finnland

68. sæti Noregur

187. sæti Færeyjar


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×