Erlent

Segir brotið á rétti sínum með einangrun

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AP
Hjúkrunarfræðingur sem sett var í einagrun í New Jersey í Bandaríkjunum eftir að hún kom heim frá Vestur-Afríku, segir einangrunina vera ómannúðlega. Þá veltur hún því fyrir sér af hverju stjórnmálamenn taki ákvarðanir sem heilbrigðisstarfsmenn eigi að taka.

Í samtali við CNN sagði Kaci Hickox að hún sýndi engin einkenni ebólu og að hún hefði ekki greinst með veiruna í tveimur rannsóknum. Þá sagði hún að ferlið hefði tekið mikið á og að hún væri andlega uppgefinn.

Kaci, sem er í einangrunartjaldi á sjúkrahúsi í Newark, segist hafa margsinnis spurt hve lengi hún þyrfti að vera þarna, en ekki fengið nein svör.

„Að setja mig í fangelsi, er ómannúðlegt.“

Hún er ekki sátt við að Chris Christie, ríkisstjóri New Jersey, hafi sagt opinberlega að hún væri „greinilega veik“. Kaci sagði það gjörsamlega óásættanlegt af honum. Þá segir hún að það að skylda fólk í einangrun sé ekki ákvörðun sem stjórnmálamenn eigi að taka. Heilbrigðisstarfsmenn eigi að gera það.

„Fyrstu tólf tímana var ég í áfalli, en núna er ég bara reið.“

Kaci segir að hún hafi ekki fengið að taka farangurinn með sér í einangrun og sé hvorki með sjónvarp né lesefni. Þá hefur hún ekki aðgang að sturtu né klósetti. Að mestu segist hún stara á veggi.

Hún hefur áhyggjur af því að reynsla hennar muni valda því að heilbrigðisstarfsmenn fari í minna mæli til Vestur-Afríku.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×