Enski boltinn

Sam Allardyce: Desember verður erfiður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn West Ham fagna hér á móti Manchester City um helgina.
Leikmenn West Ham fagna hér á móti Manchester City um helgina. Vísir/Getty
Sam Allardyce, knattspyrnustjóri West Ham, er ekkert að missa sig yfir frábærri byrjun liðsins í ensku úrvalsdeildinni og talaði um að stóra prófið fyrir liðið kæmi í jólamánuðinum.

West Ham vann 2-1 sigur á Englandsmeisturum Manchester City um helgina og er nú í fjórða sæti deildarinnar.

Allardyce keypti Senegalann Diafra Sakho frá Metz í Frakklandi fyrir tímabilið og Sakho skoraði í sjötta deildarleiknum í röð í leiknum á móti City. Mörkin má sjá hér fyrir neðan.

„Það gengur mjög vel þessa dagana og því fylgir frábær tilfinning. Það eru samt bara níu leikir búnir og það er mikið eftir ennþá," sagði Sam Allardyce við Sky Sports.

„Það er líka erfiður tími framundan og þar erum við að tala um lok nóvember og desember. Þar bíða liðsins margir leikir með stuttu millibili," sagði Allardyce.

West Ham liðið hefur unnið þrjá deildarleiki í röð og er með 16 stig eftir 9 leiki. Liðið er sjö stigum á eftir toppliði Chelsea en aðeins einu stigi á eftir Manchester City sem er í 3. sæti deildarinnar.

Arsenal, Swansea og Liverpool eru síðan öll tveimur stigum á eftir í 5. til 7. sæti deildarinnar og Manchester United er í áttunda sætinu með 13 stig eða þremur stigum minna en West Ham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×