Innlent

Kom að drengjum að leika sér með sprautunálar

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Sprautunálarnar fundust við Birkigrund í Kópavogi.
Sprautunálarnar fundust við Birkigrund í Kópavogi.
Maður kom að þremur drengjum að leika sér með sprautur með nálum við Birkigrund í Kópavogi í gær. Maðurinn gerði íbúum og gestum í húsi í Birkigrund viðvart og bað um að hringt væri á lögregluna.

Guðrún Lárusdóttir sjúkraliði var stödd í húsinu og hringdi á lögregluna. „Ég kann engin frekari deili á manninum. Hann kom þarna og bað okkur um að gera lögreglu viðvart. Sem ég og gerði. En lögreglan hafði ekki tíma til að gera neitt í málinu, þannig að við sem vorum í húsinu fórum út og tíndum nálarnar upp,“ útskýrir Guðrún.

Mágkona Guðrúnar setti nálarnar í poka og geymdi þær, svo engin önnur börn myndu rekast í nálarnar eða leika sér með þær, eins og strákarnir þrír gerðu.

„Þeir eru sjö ára gamlir. Við báðum þá að passa sig og yfirgefa svæðið, sem þeir og gerðu,“ rifjar Guðrún upp og heldur áfram:

„Móðir eins drengsins hafði samband við mig þannig að við vitum hvaða strákar þetta eru. Það er mjög mikilvægt að þeir fari í blóðprufu til þess að hafa allan varann á,“ segir Guðrún sem telur að það sé vissulega sé óhungalegt að sprautur séu svona á víðavangi, þannig að börn geti komist í þær.

Hér að neðan má sjá Facebook-færslu Guðrúnar, sem sýnir mágkonu hennar fjarlæga sprautunálarnar svo fleiri börn komist ekki í þær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×