Innlent

Eftirspurn eftir mjólkurvörum Örnu eykst til muna

Heimir Már Pétursson skrifar
Eftirspurn eftir vörum frá Örnu í Bolungarvík hefur stóraukist eftir tæplega fjögur hundruð milljóna sekt Samkeppniseftirlitsins á Mjólkursamsöluna og umræður um einokunarstöðu hennar á markaði hófust.

Mjólkursamsalan hefur nánast verið allsráðandi á mjólkurvörumarkaðnum í áratugi. En Hálfdán Óskarsson stofnandi Örnu í Bolungarvík segir fyrirtækið varla hafa undan að framleiða vörur sínar eftir að málefni Mjólkursamsölunnar urðu áberandi í fjölmiðlum.

„Já það er töluvert mikil aukning hjá okkur núna þessa dagana. Við erum bara á fullu að framleiða til að mæta því,“ segir Hálfdán.

Og vöruúrvalið er að aukast því í næstu viku kemur laktosfrír fetaostur á markaðinn frá Örnu.

„Og svo erum við að koma með nýja skyrtegund því við höfum lent í smá vandræðum með rjóma. Við önnum ekki eftirspurn eftir rjóma þannig að við erum að reyna að framleiða meira skyr. Þá fáum við meiri rjóma til að mæta því,“ segir Hálfdán.

Velvilji í garð fyrirtækisins hafi aukist merkjanlega að undanförnu.

„Ég vona að fólk sýni okkur smá þolinmæði því þetta tekur náttúrlega smá tíma þegar þetta skellur svona á með fullum þunga. Þá tekur það smá tíma að fylla á hillur og eiga nóg af vörum,“ segir Hálfdán.

Arna reið á vaðið með framleiðslu á laktosfrírri mjólk og það leið ekki á löngu þar til risinn á markaðnum, MS, svaraði með því að framleiða sams konar vöru.

En það er greinilegt að viðskiptavinirnir eru tilbúnir til að gefa Örnu tækifæri, eins og heyra mátti á viðskiptavinum sem fréttastofan ræddi við í dag og sjá má viðtöl við í fréttinni hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×