Innlent

„Finnst mjög rangt að peningar stöðvi fólk við að reyna eignast barn“

Lillý Valgerður Pétursdóttir og Stefán Árni Pálsson skrifar
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingkona Framsóknarfokksins.
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingkona Framsóknarfokksins.
Mikilvægt er að styðja betur við þá sem fara í tæknifrjóvganir með því að draga úr kostnað við slíkar meðferðir. Þetta segir þingmaður Framsóknarflokksins sem hefur ásamt hópi þingmanna lagt fram tillögu á Alþingi þessa efnis.

Það eru sjö þingmenn úr fjórum stjórnmálaflokkum sem leggja fram tillöguna. Þingmennirnir vilja að heilbrigðisráðherra láti endurskoða reglur um greiðsluþátttöku ríkisins í tæknifrjóvgunarmeðferðum.

Silja Dögg Gunnarsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins er ein þeirra. Hún segir mikilvægt að stutt verði betur við fólk sem fer í tæknifrjóvganir þar sem kostnaður við slíkar meðferðir sé oft mikill. Í dag þurfi fólk til að mynda að greiða alveg sjálft fyrstu glasafrjóvgunarmeðferðina sem það fer í ólíkt því sem er í löndunum víða í kringum okkur.

„Það er talið að 15-20 prósent para glími við einhverskonar ófrjósemi og það þekkja allir, eða hafa lent í þessu sjálfir, einstaklinga sem hafa glímt við þetta,“ segir Silja Dögg Gunnarsdóttir.

„Ég held að þetta standi mörgum mjög nærri.“ Tæknifrjóvgunarmeðferðir fara fram á höfuðborgarsvæðinu og því þurfa mjög margir að leggja út í nokkurn ferðakostnað. Silja segir mikilvægt að koma til mót við fólk sem þarf að leggja út í mikinn ferðakostnað vegna meðferðanna.

„Þegar fólk fær þennan úrskurð að það geti ekki eignast börn sjálft þá er það oft mikill hjalli fyrir það að hefja meðverðina. Þetta kostar nokkur hundruð þúsund, þannig að það er mjög mikilvægt að fólk geti allavega hafið meðferðir. Mér finnst mjög rangt að peningar stöðvi fólk við að reyna eignast barn, sérstaklega þar sem þetta er sjúkdómur, ófrjósemi er sjúkdómur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×