Erlent

Óánægja með stæltari Bubba byggi

Atli Ísleifsson skrifar
Bumban hefur minnkað og andlitið er ekki jafn rúnnað og áður var.
Bumban hefur minnkað og andlitið er ekki jafn rúnnað og áður var. Mynd/Hit Entertainment
Teiknimyndapersónan vinsæla, Bubbi byggir, er kominn með nýtt útlit þar sem bumban hefur minnkað og andlitið ekki jafn rúnnað og áður var.

Ekki eru allir ánægðir með útlitsbreytinguna. „Reynið ekki að laga það sem ekki er gallað,“ segir Curtis Jobling, skapari Bubba byggis, í samtali við Telegraph. Aðdáendur víðs vegar um heim hafa líka gagnrýnt breytinguna í samfélagsmiðlum og víðar.

Fyrirtækið Hit Entertainment rökstyður breytinguna þannig að Bubbi byggir hafi einfaldlega verið uppfærður til að falla betur að árinu 2014. „Hann er enn hlýr og besti byggingarfélagi sem leikskólabarn getur verið með í liði, en nú er Bubbi aðlagaður að okkar tíma – sterkari, skemmtilegri, meira lifandi og hvetjandi,“ skrifar fyrirtækið á heimasíðu sinni.

Auk útlitsbreytingarinnar mun nýr maður tala fyrir Bubba byggi á ensku. Neil Morrissey hefur ljáð Bubba rödd sína allt frá árinu 1999, en nú mun leikarinn Lee Ingleby, sem fór meðal allars með hlutverk Stan Shunpike í myndinni um Harry Potter og fangann frá Askaban, taka við. Þá mun Joanne Froggatt, sem fer með hlutverk Önnu í Downton Abbey fara með hlutverk samstarfsfélaga Bubba, Wendy, sem nefnist Selma í íslensku útgáfunni.

Bubbi byggir var fyrst sýndur í sjónvarpi árið 1999 og er nú sýndur í 175 löndum.


Tengdar fréttir

Klói er orðinn köttaður

Uppskriftin af Kókómjólkinni er þó alltaf sú sama, þrátt fyrir að upplýsingar um næringainnihald hafi breyst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×