Innlent

Heyrnarlausir njóta ekki lengur aðstoðar túlka í daglegu lífi

Hjörtur Hjartarson skrifar
Sjóður sem tryggja átti heyrnarlausum túlkaþjónustu í daglegu lífi allt yfirstandandi ár er uppurinn. Þar með eru heyrnarlausir sviptir þeim réttindum sem þeir eiga til þátttöku í daglegu lífi, segir formaður félags heyrnarlausra sem telur ríkið brjóta lög með því að veita ekki þessa þjónustu nema hluta úr ári.

Þetta er annað árið í röð sem sjóðurinn tæmist á miðju ári. Túlkunum er ætlað að aðstoða heyrnarlausa einstaklinga í daglegu lífi, hvort heldur það eru vinnustaðafundir, tómstundir eða læknisheimsóknir.

„Við erum með ákveðna fjárveitingu sem við fengum í fyrsta skipti í október, 2004. Það átti að gera reglugerð strax í kjölfarið það var aldrei gert. En það er hinsvegar vinna í gangi núna sem á að koma skipulagi á þetta en henni er ekki lokið. Það er búið að vera vinna í því í fimm ár að koma á reglum um þjónustu við heyrnarlausa, heyrnarskerta og daufblinda en það er ekki komið ennþá. Við erum alltaf með bráðabirgðalausn og því gerist þetta væntanlega.“





Lög mæla fyrir um að íslenskt táknmál sé jafnrétthátt íslensku og að óheimilt sé að mismuna fólki eftir því hvort málið það notar. Má því velta fyrir sér hvort verið sé að brjóta lög í þeirra stöðu sem upp er komin. Formaður Félags heyrnarlausra er ekki í vafa um að svo sé.

„Það er alveg á hreinu. Það er í raun búið að útiloka okkur frá þátttöku í þjóðfélaginu. Það er búið að útiloka okkur frá því að sinna okkar skyldum sem húseigendur, sem foreldrar, bara sem virkur þjóðfélagsþegn.“

Heiðdís segir að engin svör komi frá menntamálaráðuneytinu og á meðan þurfa heyrnarlausir að búa í fullkominni óvissu um framhaldið.

„Ég starfa líka sem hjúkrunarfræðingur. Flest starfsþróunarnámskeið fyrir okkur eru sett á laggirnar á haustin. Þannig að þú getur ímyndað þér að ég á enga möguleika á að taka þátt núna undanfarin tvö ár. Þannig að ég á ekki möguleika á að ná frama í starfi og ekki að vinna með mína starfsþróun.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×