Innlent

Forlagið skal greiða 25 milljóna króna sekt

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Forlagið varð til árið 2008 við samruna JPV útgáfu ehf. og Vegamóta ehf.
Forlagið varð til árið 2008 við samruna JPV útgáfu ehf. og Vegamóta ehf. Vísir/Getty
Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti í dag úrskurð Samkeppniseftirlitsins frá 2011 um að Forlagið hafi brotið gegn samkeppnislögum og skal fyrirtækið greiða 25 milljónir í sekt.

Forlagið varð til árið 2008 við samruna JPV útgáfu ehf. og Vegamóta ehf. Við samrunaferlið skuldbatt Forlagið sig til að hlíta ákveðnum skilyrðum til að vinna gegn skaðlegum áhrifum samrunans en Samkeppniseftirlitið taldi fyrirtækið hafa brotið gegn þessum skilyrðum.

Brotin fólust í því að Forlagið braut gegn banni við því að birta smásöluverð bóka og banni við því að veita bóksölum afslætti sem fælu í sér óeðlilega mismunun.

Samkeppniseftirlitið krafði Forlagið um 25 milljóna króna stjórnvaldssekt en fyrirtækið skaut þeim úrskurði til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Nefndin staðfesti ákvörðun Samkeppniseftirlitsins svo Forlagið fór með málið fyrir dómstóla sem staðfestu einnig að fyrirtækið hafði brotið samkeppnislög og skyldi greiða sekt vegna þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×