Innlent

Rifist um rammaáætlun á Alþingi

Heimir Már Pétursson skrifar
Umhverfisráðherra leggur til að Hvammsvirkjun í neðri hluta Þjórsár verði tekin úr biðflokki í nýtingarflokk. Tekist á um málsmeðferðina á Alþingi.
Umhverfisráðherra leggur til að Hvammsvirkjun í neðri hluta Þjórsár verði tekin úr biðflokki í nýtingarflokk. Tekist á um málsmeðferðina á Alþingi. vísir
Vinstri græn efast um að búið sé að rannsaka nægjanlega áhrif Hvammsvirkjunar á laxagengd í Þjórsá, en samkvæmt frumvarpi umhverfisráðherra um rammaáætlun færist virkjunin úr biðflokki í nýtingarflokk. Þá er deilt um þinglega meðferð málsins.

Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfisráðherra mælti fyrir þingsályktunartillögu á Alþingi í gær um „áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða,"  sem felur í sér þá breytingu á rammaáætlun að Hvammsvirkjun í Þjórsá fer úr biðflokki í nýtingarflokk.

Mikið var tekist á um þessi mál á síðasta þingi. En verkefnisstjórn hefur haft það verkefni að gera tillögur varðandi nýtingu landssvæða, þá sérstaklega á sex virkjunarkostum sem fluttir voru úr nýtingarflokki í biðflokk í tíð fyrri ríkisstjórnar. og varða  þrjá virkjanakosti í neðri hluta Þjórsár.

„Verkefnisstjórn taldi sig ekki getað tekið afstöðu til Holtavirkjunar og Urriðafossvirkjunar þar sem ekki lægju fyrir upplýsingar um markmið fyrir mótvægisaðgerðir sem miða að verndun fiskistofna, eftirlits- og viðbragðsáætlun með lýsingu á viðbrögðum ef markmiðum er ekki náð.  Og skilgreiningu á því hvaða viðbótarrannsóknir verði að gera á búsvæðum laxfiska í Þjórsá, einkum í Laxárkvísl neðan við Búða- og Murneyrarkvísl,“  sagði Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfisráðherra á Alþingi í gær.

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna gagnrýnir að með þessari tillögu ráðherra, sem vissulega byggi á tillögum verkefnisstjórnar,  sé verið að taka út einn kost í stað þess að raða upp kostum eins og rammaáætlun geri ráð fyrir.

„Við höfum líka efasemdir um að búið sé að rannsaka áhrif þessarar virkjunar nægjanlega vel, Hvamsvirkjunar, á laxagengd í Þjórsá. Sem er ekki bara mjög mikilvægt út frá umhverfissjónarmiðum, heldur hefur það líka efnahagsleg áhrif því það eru auvitað mikil verðmæti í þessum laxastofni,“ segir Katrín.

Þá liggi engar rannsóknir fyrir á samfélagslegum áhrifum Hvammsvirkjunar. Slíkar rannsóknir séu mikilvægar því allar tillögur af þessu tagi eigi að byggja á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar.

Vinstri græn og aðrir stjórnarandstöðuflokkar gagnrýna að tillaga um þennan staka virkjanakost eigi að fara til umsagnar í atvinnuveganefnd en ekki í umhverfisnefnd þingsins.

„Og mér þykir þessi meðhöndlun sýna að menn séu ekki að starfa í takt við þá hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar sem áætlunin byggir á. Að við séum að tala í sama samhenginu um vernd og nýtingu. Sem er auðvitað eina leiðin til að skapa sátt,“ segir Katrín Jakobsdóttir.

Síðar í dag verða greidd um það atkvæði á Alþingi að kröfu Vinstri grænna hvort þingsályktunartillaga ráðherra fari til umsagnar í umhverfisnefnd eða atvinnuveganefnd Alþingis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×