Innlent

Afgreiddu bæjarmálin á sex mínútum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/stefán
„Hvað er að frétta af bæjarstjórn Hafnarfjarðar? Jú, það er það að frétta að haldinn var bæjarstjórnarfundur í dag sem tók heilar 6 mínútur og var ekki með einni einustu tillögu til afgreiðslu. Ég er hugsi...,“ skrifar Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, fulltrúi VG í bæjarstjórn og fyrrverandi bæjarstjóri Hafnarfjarðabæjar.

Líkt og Guðrún segir var dagskrá bæjarstjórnar tæmd eftir sex mínútur og fundi því slitið eftir tíu mínútur. Enginn tók til máls á fundinum annar en bæjarstjórinn, Haraldur L. Haraldsson, sem greindi frá niðurstöðu fundarins. Í niðurstöðunni segir: „Enginn kvaddi sér hljóðs.“

Þrjú mál voru á dagskrá hjá nýjum meirihluta. Flutningur fiskistofu, fundargerðir skipulags- og byggingarfulltrúa og tilkynningar í bæjarstjórn. Til samanburðar má nefna að sama dag var haldinn fundur hjá menningar- og ferðamálanefnd en hann stóð yfir í tæpar þrjár klukkustundir. Fjögur mál voru á dagskrá.

Guðlaug Kristjánsdóttir, forseti bæjarstjórnar, sagði í samtali við Gaflarann í gær að ekki sé um málefnaþurrð að ræða. „Ég er svo sem ekki gömul í hettunni hvað dagskrá funda varðar né lengd bæjarstjórnarfunda, en veit þó að lengd umræðu fer einfaldlega eftir aðstæðum hverju sinni,“ sagði Guðlaug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×