Innlent

Tæpar 240 milljónir í laun nefndarmanna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Rannsóknarnefnd Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna.
Rannsóknarnefnd Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna. Vísir/Vilhelm
Forseti Alþingis hefur lagt fram skrifleg svör vegna kostnaðar við störf rannsóknarnefnda Alþingis. Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, lagði fram þrjár fyrirspurnir, eina fyrir hverja rannsóknarnefnd, þar sem hann spurði út í greiðslur í tengslum við störf nefndanna.

Fyrirspurnir þingmannsins sneru að rannsóknarnefnd um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna, rannsóknarnefnd um Íbúðalánasjóð og rannsóknarnefnd um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna.

Heildarlaunakostnaður Páls Hreinssonar, formanns rannsóknarnefndar um fall bankanna, nam 24,2 milljónum króna. Tryggvi Gunnarsson fékk 24 milljónir króna fyrir vinnu sína og Sigríður Benediktsdóttir 15,6 milljónir. Starfstími nefndarinnar voru 16 mánuðir.

Greiðslur til erlendra sérfræðinga sem störfuðu fyrir nefndina nam tæpum 18 milljónum króna.

Heildarlaunakostnaður þriggja nefndarmanna í rannsóknarnefnd um Íbúðalánasjóð var á bilinu 24 til 29,6 milljónir króna. Nefndin leitaði ekki til erlendra sérfræðinga en verktakagreiðslur voru rúmar 23 milljónir króna. Nefndin starfaði í 23 mánuði.

Launakostnaður var mestur við rannsóknarnefnd um fall sparisjóðanna þar sem sú nefnd var að störfum í tæp þrjú ár. Tinna Finnbogadóttir fékk rúmar 38 milljónir fyrir vinnu sína og Bjarni Frímann Karlsson rúmar 39 milljónir króna. Hrannar Már S. Hafberg fékk rúmar 24 milljónir greiddar og Sigríður Ingvarsdóttir rúmar 16 milljónir en þau unnu skemur en Tinna og Bjarni.

Greiðslur rannsóknarnefndar um fall sparisjóðanna til verktaka voru rúmar 190 milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×