Erlent

Samið við Boko Haram um vopnahlé og lausn skólastúlknanna

Atli Ísleifsson skrifar
Liðsmenn Boko Haram rændu um 270 skólastúlkum úr heimavistarskóla í Chibok í norðausturhluta Nigeríu í apríl síðastliðinn.
Liðsmenn Boko Haram rændu um 270 skólastúlkum úr heimavistarskóla í Chibok í norðausturhluta Nigeríu í apríl síðastliðinn. Vísir/AFP
Stjórnarher Nígeríu hefur samið um vopnahlé við uppreisnarhópinn Boko Haram. Þeim 200 skólastúlkum sem var rænt í apríl á þessu ári verður sleppt úr haldi.

Alex Badeh, yfirmaður nígeríska stjórnarhersins, hefur gefið út fyrirmæli um að allir innan hersins skuli framfylgja ákvæðum vopnahléssamkomulagsins í öllum sínum aðgerðum.

Danladi Ahmadu, einn leiðtoga Boko Haram, staðfestir einnig að samkomulag um vopnahlé hafi náðst.

Í síðasta mánuði var greint frá því að nígerísk stjórnvöld, Rauði krossinn og fulltrúar Boko Haram hafi átt í viðræðum við hryðjuverkasamtökin Boko Haram um lausn stúlknanna sem var rænt úr heimavistarskóla í Chibok í norðausturhluta Nigeríu.

Þá var greint frá því að Boko Haram færi fram á lausn liðsmanna samtakanna úr haldi yfirvalda í skiptum fyrir skólastúlkurnar.

Boko Haram þýðir „Vestræn menntun er synd“ á haúsatungumáli innfæddra. Markmið samtakanna er að eigin sögn að koma á og framfylgja strangari sjaríalögum í Nígeríu, en samtökin hafa reynst nígerískum yfirvöldum erfið frá árinu 2009.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×