Innlent

Foreldrar barna í Lágafellsskóla sæki börn sín eftir skóla

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/getty
Foreldrar yngstu barna í Lágafellsskóla eru hvattir til að sækja börn sín eftir skóla og frístund ef þess er kostur. Þetta kemur fram í bréfi til foreldra barna í Lágafellsskóla.

Lágafellsskóla barst í dag tilkynning um að nemenda í Höfðabergi, útibúi skólans, hefði verið boðið sælgæti af manni sem stóð framan við hlið skólalóðarinnar. 

Í bréfinu segir að barnið hafi verið eitt á ferð á leið heim eftir dvöl í frístund. Barnið hafi brugðist hárrétt við, hlaupið heim til sín þar sem það lét foreldri vita.

Lögregla var kölluð til og gaf barnið lýsingu á atburðinum og er málið í rannsókn.  Fyrr í dag greindi Vísir frá manni í Vesturbæ á svartri Range Rover bifreið sem reyndi að lokka sjö ára stúlku í bílinn og er það mál jafnframt í rannsókn lögreglu.

Foreldrar eru hvattir til að brýna eftirfarandi fyrir börnum sínum:

1. Þiggja ekki sælgæti hjá ókunnugum.

2. Fara ekki upp í bíl til ókunnugra.

3. Komi eitthvað upp: Forða sér og hafa strax samband við foreldra/starfsmenn skóla og / eða hlaupa heim.

4. Reyna að gera sér vel grein fyrir aðstæðum svo að hægt sé að lýsa atvikinu fyrir lögreglunni.

Mikilvægt er að foreldrar:

- Hafi þegar samband við lögreglu þegar atvik koma upp eða hafi samband við skólann

- Brýni fyrir börnunum að fara beint heim úr skólanum eða frístund

- Gæti þess að vekja ekki ótta hjá börnunum því að fullorðið fólk er almennt gott og traust

- Hafi útivistarreglur í huga á þessum árstíma - nú fer að dimma

- Minni börnin á að þau eigi öruggt skjól heima hjá sér og í skólanum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×