Fótbolti

Norðmenn hafa ekki fattað tónlistarhæfileika Gumma Tóta

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Guðmundur Þórarinsson, leikmaður íslenska U-21 landsliðsins og Sarpsborg í norsku úrvalsdeildinni, er mikið til lista lagt. Hann er öflugur miðjumaður sem stefnir hátt en er einnig stórefnilegur tónlistarmaður.

Hann er yngri bróðir Ingólfs Þórarinssonar, stundum kallaður Ingó veðurguð, sem var spilandi þjálfari hjá Hamri í sumar. „Ég aldist upp við að horfa á hann syngja og spila á gítar. Svo segja mamma og pabbi að þau séu ansi góð,“ sagði hann í viðtali við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Guðmundur semur sjálfur lögin sín og texta. „Stundum er þetta bara tilfinning sem maður fær - oft eitthvað kemur fyrir mann í lífinu og þá brýst eitthvað út.“

Hann segist setja fótboltann í forgrunn í Noregi. „Þar gef ég út að ég sé fótboltamaður. Norsarinn hefur ekki fattað að ég geti sungið og spilað á gítar en ég held að það yrði erfitt ef ég myndi demba mér út í það.“

Hann útilokar þó ekki að gefa út plötu í náinni framtíð enda búinn að leggja grunn að tólf lögum í hljóðveri. „En fótboltinn er í fyrsta, öðru og þriðja sæti og vonandi tekst mér einn daginn að spila fyrir mjög stórt félag.“

Viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.