Innlent

Af Suðurnesjum í æðstu embætti á höfuðborgarsvæðinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Alda Hrönn Jóhannesdóttir.
Alda Hrönn Jóhannesdóttir.
Alda Hrönn Jóhannsdóttir er nýr aðstoðarlögreglustjóri hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Alda, sem hefur undanfarin ár verið yfirlögfræðingur hjá lögreglunni á Suðurnesjum, lýkur verkefnum sínum suður með sjó út mánuðinn. Hún er settur aðstoðarlögreglustjóri til eins árs.

Alda þekkir vel til löggæslumála, en hún hefur starfað innan lögreglunnar frá árinu 1999 og var m.a. settur saksóknari efnahagsbrota um eins árs skeið. Alda, sem lauk lögfræðiprófi frá HÍ 2001, vann líka hjá LRH um tíma og þekkir því vel til embættisins. Á meðal verkefna hennar hjá LRH verður að hafa yfirumsjón með innleiðingu á nýju verklagi vegna heimilisofbeldismála, mansali og útlendingamála.

Frá fyrsta starfsdegi Sigríðar Bjarkar þann 1. september. Til vinstri er Hörður Jóhannesson og hægra megin Jón H. B. Snorrason.Mynd/Lögreglan
Alda verður því hægri hönd Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, nýskipaðs lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, sem tók við embættinu 1. september. Sigríður hefur gegnt stöðu lögreglustjóra á Suðurnesjum frá árinu 2009. Þá sótti hún um stöðuna ásamt fjórum öðrum, einn umsækjanda var einmitt Alda Hrönn.

Lögreglukonurnar hafa hlotið lof fyrir störf sín suður með sjó og skipa æðstu embætti hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Sigríður er fyrsta konan til að gegna embætti lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu en töluverð umræða hefur verið um lítinn hlut kvenna í æðstu stöðum innan lögreglunnar undanfarin misseri.

Kristján Ingi Kristjánsson.Mynd/Lögreglan
Þá hefur Kristján Ingi Kristjánsson verið skipaður nýr aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá LRH og yfirmaður R-3, deildar sem rannsakar m.a. kynferðisbrot, heimilisofbeldi og manndráp.

Kristján, sem lauk námi frá Lögregluskóla ríkisins 1988, hefur mikla reynslu sem lögreglumaður. Hann hóf störf hjá lögreglunni í Reykjavík 1986 og var síðar í ávana- og fíkniefnadeild þar sem hann gegndi starfi lögreglufulltrúa um tíma.

Kristján var í ofbeldisbrotadeild lögreglunnar í Reykjavík um árabil, en hefur starfað í kynferðisbrotadeild LRH frá árinu 2007. Hann hefur starfað í samninganefnd sérsveitar ríkislögreglustjóra.


Tengdar fréttir

Taka ofbeldið nýjum tökum

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu breytir í vetur verkferlum sínum í málum sem snúa að heimilisofbeldi. Byggt verður á góðri reynslu frá Reykjanesbæ.

Ekki tilefni til áframhaldandi lögreglurannsóknar

Ríkislögreglustjóri telur ekki tilefni til að halda áfram rannsókn á málefnum Gildis lífeyrissjóðs, samkvæmt bréfi sem Alda Hrönn Jóhannsdóttir, settur saksóknari efnahagsbrota, hefur sent embættinu.

Alda Hrönn verður saksóknari hjá ríkislögreglustjóra

Dómsmálaráðherra hefur sett Öldu Hrönn Jóhannsdóttur, staðgengil lögreglustjórans á Suðurnesjum, í embætti saksóknara hjá ríkislögreglustjóra frá og með 25. október 2010 vegna leyfis skipaðs saksóknara Helga M. Gunnarssonar.

Ætlar að taka harðar á heimilisofbeldi

Stefnumótandi breytingar voru gerðar á meðferð heimilisofbeldismála í tíð fráfarandi lögreglustjóra á Suðurnesjum. Heimilisofbeldismálum hefur fjölgað á höfuðborgarsvæðinu. Nýr lögreglustjóri segir breytt vinnubrögð það sem koma skal.

Klúr fúkyrði um kvenkyns eftirmann ekki lögbrot

Ríkissaksóknari telur að meint ummæli Helga Magnúsar Gunnarssonar, varasaksóknara í Landsdómi, um Öldu Hrönn Jóhannsdóttur, setts saksóknara efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra, varði ekki við lög. Því beri hvorki Ríkissaksóknara né lögreglustjóra höfuðborgarsvæðinu að aðhafast í máli hennar. Þetta kemur fram í úrskurði Ríkissaksóknara frá því í gær.

Saksóknari hefur kært forvera sinn

Saksóknari í efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra hefur kært forvera sinn í starfi fyrir ærumeiðingar, en hann gegnir nú embætti varasaksóknara í Landsdómi. Deilurnar munu hafa reynt mikið á samstarfsmenn. Lögregla fer yfir málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×