Fótbolti

Pahars: Ísland ekki áhyggjuefni stóru liðanna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Riga skrifar
Kári Árnason og fyrir aftan hann eru Kolbeinn Sigþórsson og Jón Daði Böðvarsson.
Kári Árnason og fyrir aftan hann eru Kolbeinn Sigþórsson og Jón Daði Böðvarsson. Vísir/Anton
Ísland mætir Lettlandi í undankeppni EM 2016 í Riga í kvöld. Liðið á sér langa sögu þrátt fyrir að Lettland hafi verið hluti af Sovétríkjunum í meira en hálfa öld.

Lettar léku sinn fyrsta landsleik árið 1922 og voru nálægt því að komast á HM 1938. Tveimur árum síðar varð Lettland hluti af Sovétríkjunum og spilaði ekki landsleik sem sjálfstætt ríki á ný fyrr en árið 1991.

Lettland hefur aldrei komist á HM en stærsta afrek liðsins er að það komst óvænt inn á EM 2004 sem fór fram í Portúgal. Lettar urðu í öðru sæti í sínum riðli, á undan liðum eins og Póllandi, og slógu svo Tyrki út í umspilinu.

Þess ber að geta að Tyrkir eru í sama riðli í undankeppni EM 2016 en Ísland lagði Tyrki að velli í síðasta mánuði, 3-0.

„Ég er viss um að þeir muni vel eftir umspilsleikjunum fyrir EM 2004,“ sagði landsliðsþjálfarinn Marian Pahars þegar ljóst varð hvaða lið lentu saman í undankeppninni.

Liðið komst ekki áfram úr sínum riðli á EM í Portúgal en náði þó jafntefli gegn Þýskalandi. Töp gegn Tékklandi og Hollandi urðu því að falli.

Árið 2009 komst Lettland upp í 45. sæti á styrkleikalista Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, sem er besti árangur þess á þeim vettvangi. Síðan þá hefur leiðin legið niður við og situr liðið nú í 99. sæti.

Árangur þess í síðustu undankeppni ber þess merki. Lettland hafnaði í næstsíðasta sæti í sínum riðli og vann aðeins tvo leiki í riðlinum - gegn Liechtenstein og Litháen á heimavelli. Liðið mátti til að mynda sætta sig við jafntefli gegn Liechtenstein ytra.

Lettar gerðu svo jafntefli við Slóvakíu á heimavelli, 2-2, í lokaleik sínum í riðlinum en þá var ljóst að hvorugt lið átti möguleika á að komast áfram.

Það þótti því ef til vill ekkert slæmt að byrja á að ná í stig til Kasakstan í fyrstu umferð riðlakeppninnar líkt og Lettland gerði í síðasta mánuði. En Pahars veit að hann þarf að fylgja því eftir með sigri á heimavelli gegn Íslandi.

„Ég efast um að Ísland og Kasakstan muni valda bestu liðunum í riðlinum miklum áhyggjum,“ sagði hann um riðilinn á sínum tíma. „Við munum að minnsta kosti gera okkar besta til að gleðja stuðningsmenn okkar og reyna að komast áfram. Við höfum reynslu af því.“

Pahars í leik með lettneska landsliðinu á EM 2004 í Portúgal.Vísir/Getty

Tengdar fréttir

Pahars leggur mikla áherslu á leikskipulag

Marian Pahars er einn þekktasti knattspyrnumaður Lettlands hin síðari ár en þessi 38 ára fyrrum sóknarmaður Southampton er nú landsliðsþjálfari Lettlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×