Innlent

Verkfall hafi mikil áhrif á heilbrigðisstofnanir

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Læknar hafa ákveðið að ganga til kosninga um verkfallsaðgerðir. Formaður Læknafélags Íslands segir að verkfall muni hafa umtalsverð áhrif á starfsemi heilbrigðisstofnana en vonar að hætta skapist ekki fyrir sjúklinga.

Samninganefnd Læknafélags Íslands og Skurðlækningafélags Íslands fundaði með samninganefnd ríkisins hjá ríkissáttasemjara í gær. Ljóst er að langt er á milli aðila, en eftir árangurslausan fund hafa læknar ákveðið að boða til kosninga um verkfallsaðgerðir en að óbreyttu mun verkfall hefjast þann 27. október.

„Aðgerðirnar felast í því að meirihluti lækna mun leggja niður störf. Það verða í gangi og eru í gangi undanþágulistar sem tryggir ákveðna læknismönnun á heilsugæslu og á sjúkrastofnunum en aðrir verða í verkfalli. Þannig að þetta mun trufla alla starfsemi sjúkrahúsa og heilsugæsla,“ segir Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands.

Ljóst er að verkfallið kæmi til með að hafa mikil áhrif en 98% íslenskra lækna eru í Læknafélagi Íslands. Þorbjörn segir nánast öruggt að læknar komi til með að samþykkja verkfallsaðgerðirnar. En koma þær til með að skapa hættu fyrir sjúklinga?

„Við vonum að þetta skapi ekki hættu en þetta mun trufla umtalsvert starf allra þessara stofnana.“

Komi til verkfalls mun sérstök undanþágunefnd taka til starfa en þangað gætu heilbrigðisstofnanir leitað til að fá fleiri lækna ef hættuástand skapast.

Þorbjörn vill ekki nefna hver nákvæm kröfugerð lækna er í viðræðunum, en segir það ekkert launungarmál að farið sé fram á umtalsverðar hækkanir. Læknar séu orðnir langþreyttir á áhugaleysi stjórnvalda en kjarasamningar lækna hafa verið lausir í átta mánuði.

„Það var mjög ánægjulegt að heyra í Kristjáni Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra þar sem hann tók undir það að kröfur læknar væru réttmætar og að þetta væri allt of langur tími sem samningar hefðu verið lausir. Það hlýtur að hafa eitthvað að segja. Ég trúi ekki öðru,“ segir Þorbjörn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×