Fótbolti

Arnór á skotskónum í sigri Helsingborgar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnór skoraði þriðja mark Helsingborgar.
Arnór skoraði þriðja mark Helsingborgar. Heimasíða Helsingborgar
Sex leikir fóru fram í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Arnór Smárason skoraði þriðja og síðasta mark Helsingborgar sem vann 3-1 sigur á Brommapojkarna á heimavelli.

David Accam kom Helsingborg yfir strax á 4. mínútu, en Jesper Karlström jafnaði fjórum mínútum síðar. Þannig var staðan fram á 47. mínútu þegar Accam kom heimamönnum yfir á nýjan leik. Arnór gulltryggði svo sigurinn með marki á 78. mínútu. Skagamaðurinn var tekinn af velli á lokamínútunni.

Guðlaugur Victor Pálsson lék allan leikinn á miðjunni hjá Helsingborg, en hann skrifaði undir nýjan samning við félagið fyrr í dag. Kristinn Jónsson var ekki í leikmannahópi Brommapojkarna.

Kristinn Steindórsson lék allan leikinn fyrir Halmstads sem tapaði fyrir Malmö á heimavelli með einu marki gegn engu. Guðjón Baldvinsson kom inn á sem varamaður hjá Halmstads og lék síðasta hálftímann.

Halldór Orri Björnsson sat allan tímann á varamannabekknum þegar Falkenbergs tapaði 1-0 á útivelli fyrir Djurgården.

Hjálmar Jónsson kom heldur ekkert við sögu hjá IFK Gautaborg sem vann Örebro í miklum markaleik, 3-4.

Mjällby bar sigurorð af AIK á heimavelli með einu marki gegn engu. Guðmann Þórisson var ekki í leikmannahópi Mjällby.

Þá vann Elfsborg 1-0 sigur á Gefle á heimavelli. Skúli Jón Friðgeirsson lék allan leikinn í vörn Gefle.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×