Enski boltinn

Liverpool braut mögulega reglur UEFA

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Liverpool er í hópi þeirra liða sem verða mögulega rannsökuð af UEFA, Knattspyrnusambandi Evrópu, fyrir brot á fjármálareglum sambandsins.

Samkvæmt reglunum getur taprekstur knattspyrnufélaga ekki verið meiri en 6,9 milljarðar króna á tveggja ára tímabili. Frá 2011 til 2013 var taprekstur Liverpool samtals 9,7 milljarðar króna.

Engu að síður eru forráðamenn Liverpool þess fullvissir að þeim verði ekki refsað eftir því sem fram kemur í enskum fjölmiðlum. Liverpool hefur gert myndarlega styrktar- og auglýsingasamninga á síðustu átján mánuðum sem gæti komið félaginu til bjargar.

Á síðasta tímabili voru 76 félög skoðuð fyrir möguleg brot á reglum UEFA en aðeins níu var refsað. Af þeim fengu Manchester City og Paris St. Germain þyngstu refsingarnar.

Liverpool fékk 1,3 milljarða króna fyrir að komast í riðlakeppni Meistaradeildarinnar en gæti mögulega orðið af þeirri upphæð ef það verður dæmt brotlegt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×