Innlent

Rassskellti lögreglukonu og sló hana í andlitið

Bjarki Ármannsson skrifar
Atvikið átti sér stað í miðbæ Ísafjarðar.
Atvikið átti sér stað í miðbæ Ísafjarðar. Vísir/Pjetur
Karlmaður á Ísafirði var í dag dæmdur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa veist með ofbeldi að lögreglukonu að störfum. Maðurinn á að hafa slegið konuna á rassinn og veitt henni högg í andlitið með olnboga þegar hún greip handlegg hans og spurði hvað honum gengi til.

Maðurinn hlaut tveggja mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm í Héraðsdómi Vestfjarða. Hann var einnig dæmdur til að greiða allan sakarkostnað.

Maðurinn sagðist ekki muna eftir atvikum við skýrslutöku lögreglu. Hann hafi drukkið mikið um kvöldið og minni hans því gloppótt. Fyrir dómi játaði hann hinsvegar að hafa slegið konuna á rassinn en sagðist hafa gert það „í fíflagangi“ og ekki strax áttað sig á því að hún gæti móðgast við það.

Hann sagðist hafa verið mjög ósáttur með það að hún greip í hann og slitið sig frá henni með afli. Hann hafi þó ekki áttað sig á því að lögreglukonan hafi hlotið skurð við hægri augabrún við átökin.

Atvikið átti sér stað aðfaranótt sunnudags þann 2. febrúar síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×