Hin 24 ára gamla Maria Jimenez Pacifico hélt ásamt vinkonu sinni í miðbæ Reykjavíkur fyrir tveimur og hálfu ári til að skemmta sér. Sú skemmtun breyttist fljótt í martröð því hún vaknaði upp við það að ókunnugur maður var að nauðga henni.
Líkur benda til að maðurinn hafi byrlað Mariu eitur í þeim tilgangi að fara með hana heim, þar sem hún vaknaði á dýnu úti á miðju gólfi, umkringd kvenmannsfötum og smokkum. Maria var fljót að hugsa, sá að Facebook-síða mannsins var opin á tölvu rétt hjá og addaði sjálfri sér.
Í kjölfarið kærði Maria manninn, lögreglan sá aðstæðurnar sem hún lýsti og við skoðun á bráðamóttöku fannst í henni sæði úr manninum. Hann neitaði engu að síður að hafa haft við hana samfarir.
Í sumar fékk Maria þær fréttir að málið yrði fellt niður þar sem ekki væru til staðar nægar sannanir og maðurinn hefði lent í bílslysi og glímdi af þeim sökum við minnistruflanir. „Þýðir það að ef þú lendir í bílslysi að þú megir nauðga fólki?,“ spyr Maria sem er ósátt við kerfið og lögmanninn sem ríkið skipaði henni.
Innslagið úr Íslandi í dag má sjá í spilaranum hér að ofan.
Addaði nauðgaranum á Facebook
Edda Sif Pálsdóttir skrifar