Fótbolti

Jón Daði: Ólýsanlegt að skora í sínum fyrsta keppnisleik

Ingvi Þór Sæmundsson á Laugardalsvelli skrifar
Jón Daði í baráttunni í Dalnum í kvöld.
Jón Daði í baráttunni í Dalnum í kvöld. vísir/getty
„Þetta var æðislegt og framar vonum ef ég á að segja alveg eins og er. Það var frábært að byrja með svona sterkum sigri og gríðarlega mikilvægt upp á framhaldið að gera,“ sagði Jón Daði Böðvarsson sem var nokkuð óvænt í byrjunarliði Íslands í kvöld.

Selfyssingurinn þakkaði traustið með marki og frábærum leik. Hann sagði að það hefði ekki komið honum neitt sérstaklega á óvart að vera í byrjunarliðinu.

„Nei, svo sem ekki. Mér finnst ég vera búinn að standa mig vel. Það hefði hins vegar ekki heldur komið á óvart ef einhver annar hefði byrjað inn á í staðinn fyrir mig - þetta er það sterkur hópur og flott lið.

„Það var frábær tilfinning að skora og það er ólýsanlegt að skora í sínum fyrsta keppnisleik,“ sagði Jón Daði sem skoraði fyrsta mark leiksins eftir hornspyrnu Gylfa Þórs Sigurðssonar á 18. mínútu. En komu Tyrkirnir honum á óvart?

„Já, kannski eilítið. Við bjuggumst við meiru af þeim, en við vorum búnir að undirbúa okkur vel fyrir leikinn. Fara yfir taktík og hvernig við áttum að loka á þá og það gekk mjög vel,“ Jón Daði sem lék sinn fjórða landsleik í kvöld.

Hann og Kolbeinn Sigþórsson, framherjar Íslands, voru mjög duglegir í leiknum og pressuðu tyrknesku varnarmennina stíft. En var það planið fyrir leikinn?

„Já, bæði og. Við pössuðum okkur á að fara ekki fram úr okkur, loka hættulegum svæðum og það gekk mjög vel eftir,“ sagði Jón Daði að lokum.


Tengdar fréttir

Sögustundin: Ísland - Tyrkland

Ísland og Tyrkland mætast í áttunda sinn á knattspyrnuvellinum í kvöld í undankeppni EM 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×