Fótbolti

Ragnar Sig: Hafði aldrei séð Jón Daða spila

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ragnar í baráttunni í kvöld.
Ragnar í baráttunni í kvöld. Vísir/AFP
„Við byrjuðum leikinn af þvílíkum krafti og sýndum að við vildum þetta augljóslega meira en þeir,“ segir miðvörðurinn Ragnar Sigurðsson. Hann sagði það hafa komið sér á óvart hve slakir Tyrkirnir voru.

„Ég veit ekki hvort þeir vanmátu okkur eða hvort þeir nenntu þessu ekki. Við vorum allavega betri, náðum marki snemma og þá verður þetta miklu auðveldara.“

Ragnar sagði að landsliðið hefði vitað nákvæmlega hvað þeir ætluðu að gera og sömuleiðis hvað Tyrkirnir myndu gera. Liðið væri búið að æfa í tíu daga og kortlagt Tyrkina vel.

Jón Daði Böðvarsson spilaði sinn fyrsta mótsleik í kvöld. Hann skoraði auk þess að skalla í slá. Kom frammistaða hans Ragnari á óvart?

„Ég vissi ekki við hverju ég átti að búast því ég hef aldrei séð hann spila. Hann er ótrúlega góður að taka á móti boltanum og halda honum fyrir okkur, setti gott mark og ég held að það geti sagt að hann hafi komið á óvart.“

Í síðari hálfleik ýtti framherji Tyrkjanna við Ragnari. Einhver hefði látið sig falla eins og er ansi algengt í nútímafótbolta. Ragnar stóð sem fastast.

„Ég fatta aldrei að láta mig falla. Ég var skallaður í andlitið í leik í Rússlandi um daginn og fattaði ekki að henda mér niður. Þetta er ekki í eðlinu hjá okkur. Kannski hjá einhverjum öðrum þjóðum en ef maður meiðir sig ekki á maður ekkert að henda sér niður.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×