Innlent

Þingnefnd boðar opinn fund um lekamálið

Heimar Már Pétursson skrifar
visir/gva
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis fundaði um lekamálið svo kallaða í morgun. Ögmundur Jónasson formaður nefndarinnar og fyrrverandi innanríkisráðherra segir að ákveðið hafi verið að nefndin boði til opins fundar um málið.

“Og ég hef lýst því yfir að það sé mjög mikilvægt að hann fari frame ins fljótt og kostur er og helst áður en þing kemur saman,” segir Ögmundur.

En Alþingi kemur saman hinn 9. september næst komandi. Nefndin muni hins vegar ekki gera neitt sem truflað geti skoðun Umboðsmanns Alþingis á málinu.

“Það er núna í hans höndum og við bíðum eftir því hver framvindan verður þar á bæ áður en við tökum frekari ákvarðanir,” segir Ögmundur.

Ögmundur sem var innanríkisráðherra áður en Hanna Birna Kristjánsdóttir tók við embættinu, vill ekki að svo stöddu leggja mat á hennar stöðu. Hann einbeiti sér að skyldum sínum sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

“Ég met það hins vegar svo að þetta mál er þess eðlis að það verður ekkert vikist undan því að það komi til kasta nefndarinnar og þingsins. En ég tel það vera í fullkomlega eðlilegum farvegi hjá Umboðsmanni Alþingis núna,” segir Ögmundur Jónasson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×