Erlent

Varar Rússa við að veita aðstoð í Úkraínu

Atli Ísleifsson skrifar
Úkraínski stjórnarherinn tilkynnti fyrr í dag að stutt væri í að hann næði milljónaborginni Donetsk aftur á sitt vald.
Úkraínski stjórnarherinn tilkynnti fyrr í dag að stutt væri í að hann næði milljónaborginni Donetsk aftur á sitt vald. Vísir/AFP
José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, hefur varað Vladimír Pútín Rússlandsforseta við að hefja einhliða hernaðaraðgerð í austurhluta Úkraínu, sama undir hvaða yfirskini það kunni að vera.

Barroso og Pútín ræddu saman í síma fyrr í dag eftir að talsmaður rússneskra stjórnvalda tilkynnti að unnið væri að því að senda rússneskt hjálparlið inn í austurhluta Úkraínu í samstarfi við Rauða krossinn.

Anders Fogh Rasmussen, aðalframkvæmdastjóri NATO, sakaði Rússa um að hyggja á  hernaðaríhlutun í Úkraínu undir yfirskini neyðaraðstoðar.

Rauði krossinn hefur enn ekki tjáð sig um málið.

Úkraínski stjórnarherinn tilkynnti fyrr í dag að stutt væri í að hann næði milljónaborginni Donetsk aftur á sitt vald, en borgin hefur verið í höndum aðskilnaðarsinna um nokkurt skeið.

Að sögn talsmanna NATO hefur um 20 þúsund manna rússneskt herlið verið á landamærum Úkraínu síðustu daga, herlið sem kann að vera notað í fyrirhugaðri innrás.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×