Erlent

Verkamannaflokkurinn með 7% forskot í Bretlandi

Randver Kári Randversson skrifar
David Cameron, forsætisráðherra og formaður Íhaldsflokksins, og Ed Miliband, formaður Verkamannaflokksins.
David Cameron, forsætisráðherra og formaður Íhaldsflokksins, og Ed Miliband, formaður Verkamannaflokksins. Vísir/AFP
Samkvæmt nýrri skoðanakönnun breska blaðsins Guardian hefur Verkamannaflokkurinn nú mest fylgi flokka í Bretlandi. Flokkurinn mælist nú með 38% fylgi, en Íhaldsflokkurinn hefur 31%. Frjálslyndir demókratar hafa 12% fylgi og Breski sjálfstæðisflokkurinn, UKIP mælist með 10% fylgi.

Á vef Guardian kemur fram að Verkamannaflokkurinn bæti við sig 5 prósentustigum frá síðustu könnun og hefur fylgi flokksins ekki verið meira frá því í marsmánuði. Íhaldsflokkurinn tapar þremur prósentustigum .

Könnunin var framkvæmd um nýliðna helgi, en síðasta vika reyndist Íhaldsmönnum erfið, ekki síst David Cameron, forsætisráðherra. Á miðvikudag tilkynnti Boris Johnson, borgarstjóri Lundúnaborgar, um að hann hygðist bjóða sig fram á ný til breska þingsins í komandi þingkosningum á næstu ári, en það er talið geta veikt stöðu Camerons sem leiðtoga flokksins. Þá sagði Warsi barónessa, af sér embætti aðstoðarutanríkisráðherra í mótmælaskyni við stefnu stjórnarinnar í málefnum Palestínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×