Erlent

Leigubílstjórar í Sacramento ósáttir við að þurfa að taka enskupróf

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Leigubílstjórar í Sacramento eru ósáttir.
Leigubílstjórar í Sacramento eru ósáttir.
Leigubílstjórar í Sacramento í Bandaríkjunum eru ósáttir við ákvörðun borgaryfirvalda, en þeir hafa nú verið skikkaðir til þess að taka enskupróf ef þeir vilja halda réttindum sínum og starfi.

Talsmaður borgaryfirvalda segir að prófið hafi verið sett á eftir ábendingar frá íbúum Sacramento. „Margir hafa kvartað undan því að geta ekki rætt nógu skýrt við bílstjórana. Margir farþegar sögðust ekki hafa getað komið því til skila hvert þeir vildu fara," segir Brad Wasson.

Prófið er tvíþætt, annar hlutinn er tekinn skriflega og hinn í gegnum netið. Leigubílstjórar sem vilja halda leyfum sínum þurfa að þreyta prófið. Tuttugu og átta bílstjórar hafa tekið prófið og féllu átján þeirra á að minnsta kosti öðrum hluta þess.

Í samtali við útibú fréttastofu CBS sjónvarpsstöðvarinnar í Sacramento segir Mohammad Ahsan að prófið sé alltof erfitt. Hann féll á prófinu. „Þeir notuðu mjög erfið orð, mjög erfiða ensku. Það ætti ekki að gera vandamál úr því ef maður notar auðvelda ensku," segir hann.

Markmið prófsins er að spyrja spurninga sem ættu að vera leigubílstjórum mikilvægar. Til dæmis er spurt um samheiti og orðaforða. Leigubílstjórar hafa kvartað undan því að spurningar tengist öðru en nauðsynlegum orðaforða, sem þeir þurfa að nota í starfi sínu.

Borgaryfirvöld segja það ekki koma til greina að leggja prófið niður en Wasson segir borgina tilbúna að taka við ábendingum um hvernig megi bæta það, þannig að leigubílstjórar verði sáttir.

Í frétt CBS kemur fram að einhverjir bílstjórir íhugi að láta réttindi sín renna út, frekar en að reyna að taka prófið. Þeir hræðist að falla, því ef þeir falli þrisvar missi þeir réttindin. Wasson segir að sú regla verði þó líklega endurskoðuð.

Hér að neðan má sjá sjónvarpsfrétt um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×