Erlent

Láta reyna á nýtt lyf gegn ebólu

Birta Björnsdóttir skrifar
Lyfið heitir Zmapp, en það hefur enn ekki verið prófað á mönnum, eins og alsiða er þegar ný lyf eru sett á markað. Í ljósi útbreiðslu sjúkdómsins hefur þó verið ákveðið að láta á það reyna hvort lyfið virki, þótt lítið sé vitað um mögulegar aukaverkanir til að mynda.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin sagði það réttlætlanlegt í ljósi aðstæðna og forseti Líberíu, Ellen Johnson Sirleaf , sagði að meira en helmings þeirra sem smitist af ebólu bíði dauðinn einn og sýktir hafi því litlu að tapa í þessum efnum.

Tveir líberískir læknar verða þeir fyrstu sem fá lyfið í Afríku, en það hefur þegar verið reynt á þremur vesturlandabúum. Einn þeirra, spænskur prestur sem hafði dvalist í Líberíu en var fluttur með mikilli viðhöfn á sjúkrahús í Madrid í síðustu viku, lést í dag. Sjúkrahúsinu hefur nú verið lokað sökum smithættu.

Talsverðrar reiði gætir vegna þess hve fáir Afríkubúar hafa fengið lyfið en langflestir þeirra sem sýktir eru koma frá Afríku.

Virkni lyfsins á eftir að koma í ljós, en ljóst er að það er af skornum skammti. Bandarískur framleiðandi lyfsins gefur Líberíumönnum lyfið og hefur ákveðið að senda þeim alla tiltæka skammta og ekki sé von á meiru í bráð.

Yfirvöld í Rúanda lýstu því yfir í dag að þýskur maður þar í landi, sem talinn var smitaður af ebólu, reyndist ekki hafa smitast af veirunni. Ekkert smit hefur því enn komið upp þar í landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×