Erlent

Brasilískur forsetaframbjóðandi fórst í flugslysi

Atli Ísleifsson skrifar
Campos hefur mælst með þriðja mesta fylgið í kosningabaráttunni en kosningar fara fram í landinu í október.
Campos hefur mælst með þriðja mesta fylgið í kosningabaráttunni en kosningar fara fram í landinu í október. Vísir/AFP
Brasilíski forsetaframbjóðandinn Eduardo Campos fórst þegar einkaflugvél hans hrapaði nærri borginni Santos fyrr í dag. Flugstjórn missti samband við vélina, sem er af gerðinni Cessna 560XL, þegar flugmaður undirbjó lendingu.

Myndskeið hafa birst þar sem sést í svartan reyk í úthverfi Santos. Í frétt BBC er haft eftir slökkviliðsmönnum að um tíu fórnarlömb sé að ræða, þó að ekki hafi verið tekið fram hvort þau hafi látist eða slasast.

Hinn 49 ára Campos hefur mælst með þriðja mesta fylgið í kosningabaráttunni, eða um 10 prósent, en kosningar fara fram í landinu í október. Hefur hann lýst sér sem vinstrimanni en hann er fyrrum stuðningsmaður Dilmu Rousseff forseta sem sækist nú eftir að fá að gegna embættinu annað kjörtímabil. Gegndi hann embætti fylkisstjóra Pernambuco í norðausturhluta landsins.

Í frétt Reuters kemur fram að lögregla sé ekki viss um hve margir hafi farist í slysinu að svo stöddu. Að sögn mun varaforsetaefni Campos, Marina Silva, ekki hafa verið um borð í vélinni.

Lögregla og slökkvilið er nú að störfum í Santos, sem er um 70 kílómetrum suðaustur af Sao Paulo. Vélin var á leið frá Rio de Janeiro til Guaruja, borgar í grennd við Santos.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×