Erlent

Ráðgjafi Pútíns segir Pólland dauðadæmt

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vladimir Zhirinovsky
Vladimir Zhirinovsky MYND/WIKIPEDIA
„Þeim verður tortímt. Ekkert mun standa eftir. Leiðtogar þessara dvergríkja ættu að muna hverjir þeir eru,“ sagði Vladimir Zhirinovsky varaforseti neðri deildar rússneska þingsins, Dúmunnar, í samtali við rússnesku sjónvarpsstöðina Russia 24 TV á mánudag.

Zhirinovsky er leiðtogi Frjálslynda lýðræðisflokksins sem er afar þjóðernissinnaður. Þrátt fyrir að flokkurinn sé í stjórnarandstöðu er Zhirinovsky talinn mikill bandamaður Kremlar en hann telur að örlög Austur-Evrópu séu í höndum eins manns, Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta.

„Öllum vangaveltum um stríð og fríð, sérstaklega þeim sem snúa að málefnum Úkraínu, verður svarað af einum manni, það er leiðtoga Rússlands,“ sagði Zhirinovsky. „Eystrarsaltsríkin og Póland eru dauðadæmd. Þeim verður tortímt. Ekkert mun standa eftir,“ bætti hann við.

Leiðtogar Póllands og annarra Mið- og Austur-Evrópu vinna nú að því að auka varnir NATO gegn ógninni í austri en Vladimir Zhirinovsky gaf lítið fyrir slíkar tilraunir.

„Ekkert ógnar Bandaríkjunum, því þau eru langt í burtu, en Austur-Evrópa hættir á að láta eyða sér algjörlega. Þetta er hennar sök því við getum ekki sætt okkur við það að flugvélum eða flugskeytum sé skotið á loft frá landsvæðum þessara ríkja inn í Rússland. Við þurfum að eyða þeim 30 mínútum áður en slíkt á sér stað.“

Tölurverða ólga er nú í austurhluta Úkraínu en Vladímír Pútín sagði á mánudag að stjórn hans myndi senda hjálpargöng til þeirra sem hafa orðið fyrir barðinu á átökunum í landinu sem hafa nú dregið rúmlega 2000 manns til dauða. Mikill fjöldi vörubíla sem flytja hjálpargögn til íbúa Austur-Úkraínu er nú hins vegar stopp í sunnanverðu Rússlandi. Yfirvöld í Kænugarði vilja ekki hleypa bílalestinni inn í Úkraínu því þau telja að stjórnvöld í Rússlandi muni reyna að nota bílalestina sem átyllu fyrir innrás.

Talið er að um 45 þúsund rússneskir hermenn séu nú við landamæri Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×