Erlent

Húsleit á heimili Cliffs Richard vegna meints kynferðisbrots

Atli Ísleifsson skrifar
Sir Cliff Richard hefur verið einn vinsælasti tónlistarmaður Breta síðustu áratugina.
Sir Cliff Richard hefur verið einn vinsælasti tónlistarmaður Breta síðustu áratugina. Vísir/AFP
Lögregla í Berkshire í Bretlandi hefur gert húsleit í húsi í eigu tónlistarmannsins Sir Cliff Richard í tengslum við gamalt kynferðisbrot.

Í frétt BBC segir að enginn hafi verið handtekinn í málinu og að Richard hafi ekki verið á heimilinu þegar húsleitin var gerð. Á vef NRK segir að Richard hafni þeim ásökunum sem hafa verið bornar gegn honum.

Talsmaður lögreglu segir málið snúa að meintu broti gegn sextán ára dreng og að það hafi verið framið á níunda áratugnum í Suður-Jórvíkurskíri.

Sir Cliff Richard er einn vinsælasti breski tónlistarmaður allra tíma og hefur selt meira en 21,5 milljón smáskífna. Er hann eini tónlistarmaðurinn til að hafa komið breiðskífu í eitt af fimm efstu sætum breska metsölulistans alla síðustu sjö áratugi.

Richard kom tvívegis fram fyrir hönd Breta í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva þar sem hann söng meðal annars „Congratulations“ árið 1968. Árið 2013 gaf hann úr sína hundruðustu skífu.

Hinn 73 ára söngvari var sæmdur riddaratign árið 1995 og söng meðal annarra á hátíðartónleikum Elísabetar Bretlandsdrottningar við Buckingham-höll árið 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×