Erlent

Margot Wallström aftur á fullt í sænsk stjórnmál

Atli Ísleifsson skrifar
Margot Wallström hefur víðtæka reynslu eftir að hafa lengi starfað í Brussel. Síðustu árin hefur hún gegnt stöðu sérstaks erindreka Sameinuðu þjóðanna á sviði kynferðislegs ofbeldis í hernaði.
Margot Wallström hefur víðtæka reynslu eftir að hafa lengi starfað í Brussel. Síðustu árin hefur hún gegnt stöðu sérstaks erindreka Sameinuðu þjóðanna á sviði kynferðislegs ofbeldis í hernaði. Vísir/AFP
Margot Wallström hefur tilkynnt að hún hyggst taka fullan þátt í kosningabaráttunni fyrir sænska Jafnaðarmannaflokkinn.

Wallström tilkynnti þetta á fréttamannafundi með Stefan Löfven, formanni Jafnaðarmanna, nú fyrir stundu. Kom þar fram að Wallström myndi gegna mikilvægu hlutverki í kosningabaráttunni og að kosningum loknum.

Þingkosningar fara fram í Svíþjóð þann 14. september næstkomandi og benda skoðanakannanir til að borgaralegu flokkarnir sem nú stjórna landinu munu lúta í lægra haldi gegn vinstriflokkunum.

Lengi hefur verið spáð því að Wallström myndi snúa aftur í innanríkispólitíkina og hefur nafn hennar jafnan komið upp þegar Jafnaðarmenn hafa skipt um formann síðustu árin. Wallström sagðist ætla leggja mikla áherslu á umhverfismál í kosningabaráttunni enda munu mikilvægi þeirra einungis aukast á komandi árum.

Hin 59 ára Wallström gegndi embætti menningarmálaráðherra frá 1994 til 1996 og félagsmálaráðherra 1996 til 1998. Sagði hún af sér árið 1998 eftir ósætti við Göran Persson, þáverandi forsætisráðherra.

Ári síðar tók hún við embætti framkvæmdastjóra umhverfismála ESB og gegndi stöðunni til 2004. Frá 2004 til 2010 gegndi hún embætti varaforseta framkvæmdastjórnar ESB í framkvæmdastjórn José Manuel Barroso.

Að undanförnu hefur hún svo gegnt embætti stjórnarformanns Háskólans í Lundi og verið sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna á sviði kynferðislegs ofbeldis í hernaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×