Enski boltinn

Scholes telur að United eigi ekki möguleika á titlinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Scholes.
Paul Scholes. Vísir/Getty
Paul Scholes, ein af nýjustu goðsögnunum í sögu Manchester United, hefur ekki trú á því að hollenski knattspyrnustjórinn Louis van Gaal geti gert Manchester United að enskum meisturum á sínu fyrsta tímabili.

Scholes er á því að baráttan um enska titilinn á þessu tímabili verði á milli Englandsmeistara Manchester City og Chelsea.

Scholes aftur á móti viss um að Louis van Gaal takist að koma United aftur á toppinn bara ekki á fyrstu leiktíðinni.

„Ég held að City og Chelsea berjist um titilinn því bæði lið hafa styrkt sig með fínum leikmönnum. United, Liverpool og Arsenal berjast síðan um næstu tvö sætin," sagði Scholes í viðtali við Daily Mirror.

„Það er mitt mat að City og Chelsea séu bara aðeins of sterk fyrir United í ár. United stefnir á betra tímabil en í fyrra og það ætti ekki að verða mjög erfitt," sagði Scholes.

„Fyrstu sex leikirnir ættu að geta gefið liðinu mörg stig og ef þeir ná að vera við toppinn eftir þá geta þeir byggt á því. Það má samt ekki líta framhjá því að United hefur misst sterka leikmenn eins og Rio [Ferdinand], [Nemanja] Vidic, [Patrice] Evra, [Ryan] Giggs sem saman hafa unnið 30 titla," sagði Scholes.

Manchester United leikur sinn fyrsta úrvalsdeildarleik undir stjórn Louis van Gaal á morgun þegar liðið fær Gylfa Þór Sigurðsson og félagar í Swansea City í heimsókn á Old Trafford.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×