Erlent

Finnar hamstra ost ætlaðan Rússum

Atli Ísleifsson skrifar
100 þúsund oststykkjum var komið fyrir í hillum Prisma-verslana og er þegar farið að ganga vel á birgðirnar.
100 þúsund oststykkjum var komið fyrir í hillum Prisma-verslana og er þegar farið að ganga vel á birgðirnar. Vísir/Getty
Finnskar matvöruverslanir hófu sölu á finnskum osti sem ætlaðir voru á rússneskan markað á hálfvirði nú í morgun. Hefur það leitt til að fjölmargir Finnar hafi birgt sig upp af osti.

Í frétt Hbl segir að flestar Prisma-verslanir hófu sölu á Valios Oltermanni osti með rússneskum merkimiðum í morgun. Talsmaður verslananna segir að um 100 þúsund oststykki hafi verið komið fyrir í hillum búðanna og sé þegar farið að ganga vel á birgðirnar.

Rússar bönnuðu nýverið innflutning á kjöti, fiski, ávöxtum, grænmeti, mjólk og mjólkurafurðum frá aðildarríkjum ESB, Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu og Noregi í eitt ár. Brugðust Rússar þannig við eftir að Vesturveldin samþykktu viðskiptahindranir á hendur Rússum vegna ástandsins í Úkraínu.

Búist er við að fleiri matvælaafurðir sem ætlaðar voru á rússneskan markað verði seldar á góðu verði á komandi vikum.

Matvælastofnun Finnlands getur í undantekningartilvikum heimilað sölu á matvælum í pakkningum sem eru ekki með finnskum eða sænskum innihaldslýsingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×