Innlent

Eldur við Grettisgötu: „Maður beið bara eftir þessu“

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Kristján rekur verslun við Grettisgötu. Þarna í bakgrunni má sjá húsið sem brann.
Kristján rekur verslun við Grettisgötu. Þarna í bakgrunni má sjá húsið sem brann. Vísir/GVA
„Maður beið bara eftir þessu. Víkingasveitin og lögreglan hafa reglulega þurft að koma hingað og hafa afskipti af fólki í þessu húsi,“ segir Kristján B. Jónasson rekur bókaforlag við Barónstíg, ská á móti húsinu sem kviknaði í á tíunda tímanum í morgun.

„Við sem eigum eignir og rekum fyrirtæki í nágrenni við húsið tölum mikið saman og það hefur verið mikil óánægja yfir því hvað fer fram í þessu húsi. Það hefur verið mikið vesen þarna,“ segir hann. Kristján hefur leigt skrifstofuhúsnæði við Barónstíg frá því árið 2009.

„Slökkviliðið kom eins og skot, alveg rosalega góð viðbrögð hjá því. Eldtungurnar náðu aðeins út þegar ein rúðan brotnaði. En slökkviliðsmennirnir náðu að slökkva þetta eiginlega um leið. Húsið virðist samt vera mjög illa farið eftir eldinn,“ segir Kristján.

Búið er að slökkva eldinn og vinnur slökkviliðið nú að því að reykræsta húsið. Nágrannar segja í samtali við Vísi að hústökufólk hafi dvalið í húsinu. Þar hafi verið mikið partýhald á kvöldin og stöðugt ónæði. Hafði hann á orði að tímaspursmál væri þangað til eitthvað færi úrskeiðis.

Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu voru þrír í húsinu þegar eldurinn kviknaði. Vöknuðu þeir við eldinn, komust út og varð ekki meint af. Eldsupptök eru ókunn. Nágranni segir í samtali við Vísi að einn íbúa hússins hafi stokkið út um glugga af annarri hæð eftir að kviknaði í.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×